Jón Kaldal blaðamaður og félagi í hópnum að baki IWF skrifar hér um vanda Ara Trausta og félaga í VG þegar kemur að því að verja óvönduð vinnubrögð Alþingis við lagasetningu í þágu opins sjókvíaeldis.
Í greininni sem birtist í Kjarnanum segir Jón meðal annars:
„Í þessu samhengi er gagnlegt að rifja upp orð sem annar þingmaður VG lét falla í umræðum á Alþingi fyrir tveimur árum.
„Í þessu máli eru mýmörg og alvarleg lögfræðileg álitamál auk þess sem í málatilbúnaðinum öllum er náttúruverndarsjónarmiðum vikið til hliðar í þágu einnar framkvæmdar sem er óásættanlegt. Í frumvarpinu er lagt til að kæruheimild umhverfisverndarsamtaka sem virkjast við lok langs ferils verði í raun felld úr gildi með sértækum lögum. Framkvæmdaleyfið eitt getur virkjað umrædda heimild, að gildandi lögum, og hlýtur því að vera umhugsunarefni hvort löggjafinn sé með þessu máli að skapa fordæmi fyrir því að kæruheimildin verði höfð að engu í fleiri málum og þar með þau réttindi umhverfisverndarsamtaka sem Árósasamningurinn mælir fyrir um.”
Þetta sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir á Alþingi 10. október 2016 og hittir þar algjörlega naglann á höfuðið. Þann 9. október 2018 greiddi hún svo atkvæði með lagafrumvarpi sem víkur öllu því til hliðar sem hún hafði varað við tveimur árum áður.“