Baráttan heldur áfram. Gæslufólki lax- og silungsveiðiáa Íslands er eðlilega mjög órótt yfir þeim möguleika að stjórnvöld muni heimila stórfellt iðnaðareldi á laxi í opnum sjókvíum, enda yrði það bein atlaga að lífsafkomu um 1.500 fjölskyldna á landsbyggðinni.
„Fiskeldi í opnum sjókvíum við strendur landsins með frjóum fiski af norskum uppruna eru hamfarir gegn náttúrunni og íslenskum hagsmunum.“ Þetta eru lokaorð harðorðrar yfirlýsingar sem Veiðifélag Breiðdæla samþykkti á aðalfundi sínum fyrir nokkrum dögum.
Aðalfundurinn var haldinn í Eyjum, veiðihúsinu við Breiðdalsá. Mótmælir aðalfundurinn harðlega laxeldi í opnum sjókvíum við strendur landsins og skorar á stjórnvöld að grípa nú þegar til viðeigandi aðgerða til heilla fyrir framtíð þjóðar, eins og það er orðað í ályktuninni sem ber einfaldlega yfirskriftina „Ályktun um fiskeldi“.