„Það er enginn vafi að hlunnindi af laxveiðitekjum hér í okkar sveit eiga sinn þátt í að hér er búið á flestum bæjum. Fram hefur komið í ýmsum skýrslum að mikilvægi laxveiðhlunninda eru hvergi meiri á landinu en hér í Borgarfirði,“ segir Magnús Skúlason formaður Veiðifélags Þverár í Borgarfirði meðal annars í þessu í viðtali við Skessuhorn:

“Þetta hefur allt gengið út á að ryðjast áfram, það kviknar ekki á neinum viðvörunarbjöllum jafnvel þótt Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála dæmi lögmæti eldisleyfa ógilt. Þá setja alþingismenn bara lög á eftirlitið! Ég bendi á að Hafrannsóknastofnun hefur til að mynda gefið það út að helstu hrygningar- og uppeldisstöðvar Norður-Atlandshafsþorsksins séu í Ísafjarðardjúpi. Þar og á öðrum innfjörðum Vestfjarða eru einfaldlega uppeldissvæði allra okkar helstu nytjastofna. Þeim uppeldisstöðvum er stefnt í voða með mengandi eldi í opnum sjókvíum. Varðandi umhverfisþáttinn í þessu eldi bendi ég auk þess á að þegar þetta fiskeldi aflar fóðurs þarf að veiða tæp þrjú kíló af fiski úr sjó til að búa til eitt kíló af fiskafóðri, sem Nota Bene er flutt inn frá Brasilíu. Það sjá því allir hversu arfavitlaus þessi búgrein er og fjandsamleg sótsporinu sem svo mörgum er tíðrætt um á tyllidögum.”