Það var sorglegt að hlusta á framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva í kvöldfréttum RÚV tala niður þann möguleika að taka upp aðra eldistækni en opnar sjókvíar á þeim forsendum að opnu kvíarnar séu nánast allsráðandi af markaðinum um þessar mundir.

Það eru stórkostleg mistök, eða jafnvel hreinræktuð flónska, að trúa því að þó eitthvað sé einsog það er í dag þá verði það líka þannig á morgun.

Mannkynssagan geymir óteljandi dæmi um hversu dýrkeypt er að loka augunum fyrir mögulegum grundvallarbreytingum sem verða vegna tækninýjunga. Fyrir 20 árum tóku allir ljósmyndir á filmu og bandaríska fyrirtækið Kodak var feikilega verðmætt. Við vitum hvað gerðist svo.

Ef færum okkur nær í tíma og rúmi þá eru bara rétt um 10 ár síðan finnska fyrirtækið Nokia var stórveldi á farsímamarkaðinum. Á meðan stjórnarmenn Nokia undu hag sínum glaðir í Snake voru Steve Jobs og félagar hjá Apple að undirbúa tæki sem gjörbreytti farsímaheiminum nánast á einni nóttu.

Það bendir allt í eina átt. Eldið er að fara í lokaðar kvíar, í kvíar staðsettar úti á rúmsjó eða á land sem allra næst þeim mörkuðum þar sem selja á fiskinn.

Hér er frétt sem var að birtast um enn eina slíka stöð. Þessi landeldisstöð mun rísa í Noregi á næsta ári og mun framleiða lífrænan lax. Eins og kemur fram í fréttinni verður hún þannig úr garði gerð að enginn fiskur getur sloppið frá henni, sjórinn verður sóttur á 170 metrar dýpi og hún verður því laus við laxalús. Allur sjór sem kemur frá henni verður svo hreinsaður. Í fréttinni kemur líka fram að rekstrarkostnaður verður lágur og sama gildir um orkuþörfina.

Það er furðulegt að hlusta á suma talsmenn laxeldis á Íslandi nánast afneita tækni sem er mun umhverfisvænni en opna sjókvíaeldið eins og Einar K. Guðfinnsson gerði í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi. Hvað rekur menn áfram í slíkum málflutningi?

World’s largest flow through site for land-based salmon farming to start construction in 2019