Það er ekki bara í öðrum löndum sem þróunin í landeldi er hröð. Hér á Íslandi er landeldi á laxi og bleikju í miklum blóma, bæði á Norðurlandi og Reykjanesi. Velgengnin er slík að Samherji hyggst tvöfalda landeldið sitt fyrir norðan.

Svo má rifja upp að unnið er að undirbúningi 5.000 tonna landeldisstöðvar í Þorlákshöfn.

Skv. umfjöllun RÚV:

“Umhverfisstofnun leggur til að Samherja fiskeldi ehf. verði heimilt að tvöfalda framleiðslu sína á laxi eða bleikju að Núpsmýri í Öxarfirði. Núgildandi starfsleyfi heimilar framleiðslu á 1.600 tonnum af sandhverfu, lúðu, laxi og bleikju í landstöðvum en nýtt leyfi heimilar 3.000 tonn.

Tillagan að nýju starfsleyfi var birt á vef Umhverfisstofnunar í dag þar sem óskað er eftir athugasemdum við tillöguna. Frestur til að skila inn tillögum rennur út 27. desember næstkomandi. Ákvörðun um útgáfu nýs starfsleyfis verður tekin eftir að fresturinn rennur út. Frá þessu er greint á vef Umhverfisstofnunar.

Framkvæmdin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum, að mati skipulagsstofnunar. …”