Þetta er til fyrirmyndar. Landeldið er laust við laxalús og eldisfiskurinn er mun heilbrigðari en sá sem er hafður í sjókvíum.
Í frétt mbl.is segir Árni Páll að Matorku hafi tekist að markaðssetja eldisbleikjuna sem „premium“ vöru og vonast hann til að það sama verði hægt að gera við laxinn.
„Matorka sækir á markaðinn fyrir hágæða eldisfisk og hefur m.a. samið við bandarísku veitingastaðakeðjuna Nobu. Bráðum bætist laxeldi við til að renna fleiri stoðum undir reksturinn.
Uppbygging fiskeldis Matorku úti á Reykjanesi hefur gengið vel. Frá því í ágúst hefur staðið yfir slátrun á fyrstu kynslóð bleikju sem hefur vaxið og dafnað í tönkum stöðvarinnar skammt frá Grindavík, og styttist í að slátrun á annarri kynslóð hefjist.
Matorka tók þátt í bás Íslandsstofu á sjávarútvegssýningunni í Boston á dögunum en fyrirtækið hefur þegar gert strandhögg á Bandaríkjamarkaði. „Við stefnum á að ná framleiðslunni upp í 3.000 tonn innan skamms, og með litla básnum í Boston vildum við vinna í haginn fyrir það. Væri of seint að fara að sinna sölu- og markaðsstarfinu þegar byrjað er að slátra,“ segir Árni Páll Einarsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins en í dag getur Matorka framleitt árlega um 1.500 tonn af fiski. …
Að framleiða vöru í þessum gæðaflokki greiðir okkur leið að kröfuhörðustu kaupendum og t.d. stutt síðan Matorka gerði samning um sölu á bleikju til veitingastaðakeðjunnar Nobu, sem meistarakokkurinn Nobu Matsuhisha rekur í samstarfi við Robert De Niro og fleiri stjörnur.“