„Bréf dýralækna sýna að velferð laxanna hafi verið í hættu í mörgum tilvikum þar sem fiskurinn hafi verið mjög lúsugur ofan á þá staðreynd að hann hafi verið nýrnaveikur,“ segir í þessari frétt sem birtist fyrst í Fréttablaðinu. Þar kemur líka fram að íslensku sjókvíaeldisfyrirtækin hafa fjórum sinnum fengið leyfi frá MAST til að hella lúsaeitri í kvíar hjá sér, en þaðan streymir það síðan óhindrað út í umhverfið.

Rétt er að rifja upp að sjókvíaeldismenn héldu því ítrekað fram að laxalús yrði ekki til vandræða við Ísland þar sem sjórinn væri svo kaldur. Þær fullyrðingar hafa reynst orðin tóm, einsog reyndar svo margar aðrar yfirlýsingar sem sjókvíaeldismenn hafa látið falla.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins hefur Arnarlax í þrígang hellt eitri í sjóinn fyrir vestan. Það er ekki allt og sumt heldur setti fyrirtækið líka út í kvíar seiði sem voru nýrnaveik. Þetta þarfnast nánari skýringa. Er fyrirtækið virkilega að setja viljandi veikan fisk ofan í kvíar fyrir vestan?