Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur, sem veiddi eldislaxana í Fífustaðadalsá í Arnarfirði, skrifar þessa hugvekju um þá miklu hættu sem villta laxinum okkar stafar af norskum eldislaxi sem sleppur úr sjókvíaeldi. Í greininni, sem birtist á Stundinni segir Jóhannes meðal annars:

„Aldrei fyrr í sögu okkar lýðveldis hefur verið veitt leyfi fyrir því að erlendur dýrastofn valsi um landið og blandist náttúrulegum dýrastofnum þess. Þetta eru hins vegar örlög íslensku laxastofnanna sem hér hafa þróast í árþúsundir. Náttúruverndarsjónarmiðin hafa orðið undir og tilvist og heilbrigði íslenskra laxastofna hafa verið sett skör neðar en tímabundin atvinnu- og byggðasjónarmið. …

Tilvera og heilbrigði íslenskra laxastofna er ekki einkamál stjórnvalda eða Íslendinga yfir höfuð. Íslendingar þurfa að rísa undir þeirri ábyrgð sem felst í því að vera hluti íslenskrar náttúru. Laxar Íslands höfðu dvalið hérlendis í árþúsundir er landnám hófst; þeir eru hinir upprunalegu íbúar Íslands – og þá á að umgangast sem slíka.“