Mjög athyglisvert er að bera saman þær upplýsingar sem koma fram í tveggja ára gömlum fyrirlestri Gísla Jónssonar, dýralækni fisksjúkdóma hjá MAST, við frétt Fréttablaðsins sem birtist í vikunni af lúsavanda í íslensku sjókvíaeldi.

Í frétt blaðsins kemur fram að velferð eldislaxa hefur verið í hættu í mörgum tilvikum þar sem fiskurinn hefur verið mjög lúsugur og að íslensku sjókvíaeldisfyrirtækin hafa fjórum sinnum fengið leyfi frá MAST til að hella lúsaeitri í kvíar hjá sér.

Í rúmlega tveggja ára gömlum fyrirlestri dýralæknis MAST segir hins vegar að „sökum norðlægrar legu Íslands, og ekki síst þeirra svæða sem heimilt er að ala lax í sjókvíum frá 2004, á lúsin erfitt uppdráttar og getur á engan hátt orðið sambærilegt vandamál og hjá nágrannaþjóðum okkar.“

Þar segir líka: „Meðhöndlun gegn lús hefur aldrei þurft að koma til álita í laxeldi á núverandi slóðum sjókvíaeldis.“

Staðreyndin er hins vegar sú að innan við ári eftir að dýralæknir MAST flutti þennan fyrirlestur var komin ósk frá sjókvíaeldisfyrirtæki um að nota lúsaeitur. Og tveimur árum eftir fyrirlesturinn hefur MAST fjórum sinnum heimilað notkun lúsaeiturs hér við land.

Í frétt Fréttablaðsins kemur jafnframt fram að dæmi hafi verið um „að allur fiskur hafi verið alvarlega lúsugur í kvíum laxeldisfyrirtækja þar sem sár hafi verið farin að myndast á fisknum sem hafi haft áhrif á hann.“

Er ekki full ástæða til að staldra við þegar álit þeirra sem koma að útgáfu rekstrarleyfa og eftirliti með sjókvíaeldi hér við land, byggist á jöfn röngum forsendum og þetta dæmi sýnir?

https://www.facebook.com/icelandicwildlifefund/photos/pcb.489705354830366/489705118163723/?type=3&theater

https://www.facebook.com/icelandicwildlifefund/photos/pcb.489705354830366/489705104830391/?type=3&theater