Á sama tíma og sjókvíaeldið heldur áfram að verða fyrir þungum höggum og gagnrýni vegna óásættanlegra áhrifa á umhverfið og óviðunandi aðbúnaðar eldisdýranna, sem hefur í för með sér gríðarlegan fiskidauða, er þróunin hröð í landeldinu. Í Dubai er þegar farið að selja lax sem er ræktaður innandyra í eyðimörkinni og í Bandaríkjunum eru teknar til starfa eða í byggingu landeldisstöðvar sem munu sjá sínum heimamarkaði að stóru leyti fyrir þessari lúxusvöru sem eldislaxinn er.

Á fyrrum tómataakri í útjaðri Miami er risin landeldisstöð sem mun verða sú stærsta í heimi þegar næstu áföngum hennar lýkur og í Maine eru að hefjast byggingaframkvæmdir við aðra risastöð, eins og sagt er frá í meðfylgjandi frétt SalmonBusiness.