Ekki nema von að fólk spyrji spurningarinnar sem er í fyrirsögn þessarar greinar þeirra Víðirs Hólm Guðbjartssonar, Hilmars Einarssonar og Péturs Arasons sem birtist á Vísi.

„Í næsta nágrenni við kvíasvæðið er eitt af stærri æðarvörpum Vestfjarða og þrjár litlar ár sem hýsa náttúrulega lax- og sjóbirtingsstofna. Nú þegar er búið að eitra tvisvar á svæðinu með lúsaeitri sem er hellt beint í sjóinn í kvíunum en eitrið leysir upp skel laxalúsa og annarra skeldýra með ófyrirséðum afleiðingum fyrir nálægt lífríki, samanber fæðu æðarfugla og annarra sjófugla. Að óbreyttu er von á enn meiri eiturefnanotkun þar sem laxalús hefur verið árlega yfir viðmiðunarmörkum á eldissvæðinu.

Skeytingarleysi Umhverfisráðuneytisins í þessu máli er í hróplegri andstöðu við yfirlýst stefnumál VG eins og þau eru til dæmis sett fram á heimasíðu flokksins.“