Þetta eru sláandi upplýsingar. 400 tonn eru í kringum 100.000 fiskar. Til samanburðar er allur íslenski villti laxastofninn talinn vera um 80.000 fiskar í mesta lagi.

Skv umfjöllun Stundarinnar:

“Megnið af þeim rúmlega 400 tonnum af úrgangi úr fiskeldi og frá fiskveiðum sem voru urðuð hjá Sorpurðun Vesturlands á Mýrum í Borgarbyggð árið 2016 komu frá íslenskum eldisfyrirtækjum í laxeldi. Ekki fæst uppgefið hversu mikið nákvæmlega af þeim 401,6 tonnum sem urðuð voru í flokknum „úrgangur frá vatns- og sjávareldi og fiskveiðum“ kom frá laxeldinu þar sem ekki er haldið utan um þessar upplýsingar hjá sorphirðunni, segir Hrefna Jónsdóttir framkvæmdastjóri. En hún segir hins vegar: „Efsti flokkurinn er nánast aðeins í laxeldi,“ segir Hrefna um þessi rúmlega 400 tonn.

Hrefna segir jafnframt að Sorpurðun Vesturlands veiti ekki upplýsingar um einstaka viðskiptavini fyrirtækisins og þar af leiðandi er ekki hægt að fá upplýst hversu mikið af laxi einstaka fyrirtæki, eins og til dæmis Arnarlax á Bíldudal, farga og urða í jörð á hverju ári.  Einungis laxeldisfyrirtækin sjálf geta veitt þessar upplýsingar.”