Tromsö er ekki eina sveitarfélagið í Noregi sem freistar þess að koma böndum á eldisfyrirtækin sem starfa í þeirra umdæmi, með tilheyrandi mengun og háska fyrir lífríkið frá opnu sjókvíunum.

Yfirlýsingu sveitarstjórnarfólks í Tromsö um að sveitarfélagið vildi stöðva útgáfu leyfa fyrir eldi í opnum sjókvíum og ekki endurnýja eldri leyfi, var mætt af mikilli hörku af eldisfyrirtækjunum og lobbíistum þeirra. Fulltrúar sjókvíaeldis sögðu að sveitarfélagið hefði ekkert með útgáfu þessara leyfa að gera og sögðu nánast að þau hefðu ekkert upp á dekk að gera í þessum efnum. Er það eitt og sér ákveðin áminning til sveitarfélaga hér á landi um þær aðstæður sem þau kunna einn daginn að vakna við ef þau gæta ekki að sér.

Sveitarfélögin hafa hins vegar ýmis stjórntæki til þess að hafa áhrif á gang mála, til dæmis ber þeim lagaleg skylda til að gæta þess að farið sé að lögum um mengunarvarnir og umhverfisvernd. Þetta stjórntæki vill einmitt annað sveitarfélag í Noregi, Osteröy í suðurhluta landsins, nýta sér. Þar er sjókvíaeldi leyfilegt en stjórnvöld gera kröfu um að losun skólps í sjó frá kvíunum verði engin, sem ómögulegt er að uppfylla þegar lax er alinn í opnum sjókvíum.

Meðfylgjandi réttaskýring um þetta mál var birt í vikunni í Fiskeribladet, en áskrift þarf til að geta lesið hana.