Það er víðar en í Noregi sem eldislax er að drepast í stórum stíl því aðbúnaður eldisdýranna er óviðunandi í sjókvíunum. Í meðfylgjandi frétt Stundarinnar er sagt frá því að fiskur hefur stráfallið vegna vetrarsára hjá Fiskeldi Austfjarða. Þetta var fiskur sem var að nálgast sláturstærð, sem þýðir að um tuttugu þúsund laxar hafa drepist. Til að setja þá tölu í samhengi er allur hrygningarstofn íslenska villta laxins talinn vera innan við fimmtíu þúsund fiskar.

Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar:

„Farga þurfti 70 tonnum af eldislaxi hjá Fiskeldi Austfjarða í Berufirði vegna óveðurs sem kom upp í lok febrúar síðastliðinn. Þetta kemur fram í svörum frá Matvælastofnun sem hefur eftirlit með laxeldisfyrirtækjum á Íslandi. Fiskurinn drapst vegna nuddskaða í óveðrinu.

Orðrétt segir um þetta í svari Matvælastofnunar: „Í miklu óveðri […] varð lax sem var tilbúinn til slátrunar fyrir nuddskaða. Fiskurinn var því fluttur til slátrunar. Um 70 tonnum af óslægðum laxi tókst ekki að bjarga og fór sá fiskur í viðeigandi meltumeðhöndlun og meltan verður fjarlægð af fyrirtæki sem sér um að meðhöndla allan fiskúrgang frá Fiskeldi Austfjarða.““