„Skítur og rotnandi fóðurafgangar eru ekki eini vandi laxeldis í opnum sjókvíum.“

Ingólfur Ásgeirsson svarar Kristjáni Þ. Davíðssyni, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva, í Fréttablaðinu í dag. Ingólfur segir m.a. í grein sinni:

“Rétt eins og hjá sauðkindinni, þegar hún er á stanslausri hreyfingu, dreifist saur villtra fiska um stórt svæði. Allt önnur staða er þegar þúsundir tonna af eldisfiski eru á sama blettinum í þröngum fjörðum mánuðum og jafnvel árum saman. Þar verða afleiðingarnar þær að á botninum fyrir neðan sjókvíarnar myndast fjall af úrgangi.

Þegar skepnur eru hafðar margar saman lengi á húsi moka allir bændur með sjálfsvirðingu skítinn úr gripahúsunum. Og lög um meðferð úrgangs frá gripahúsum eru afar ströng. Harðbannað er að losa það skólp í sjó.

Eldismenn þrífa hins vegar ekki í kringum sig. Í Patreksfirði er staðan til dæmis sú að hvorki fæst vottun um að fiskeldið, sem Arnarlax stundar þar, sé sjálfbært né ábyrgt. Ástæðan er mengunin frá eldinu. Skólpið frá laxeldiskvíunum hefur ekki aðeins hlaðist upp og eytt lífi botndýra heldur rekur líka inn fjörðinn og safnast þar saman. …

Skítur og rotnandi fóðurafgangar eru ekki eini vandi laxeldis í opnum sjókvíum. Þar er líka stundaður eiturefnahernaður. Þannig hellti Arnarlax síðastliðið vor eiturefnum í sjóinn í Arnarfirði þegar fyrirtækið var að berjast við lúsafár í laxeldiskvíum sinum. Eðli málsins samkvæmt er losun eiturefna í opnar sjókvíar ávísun á umhverfismengun langt út fyrir kvíarnar. Í Noregi er staðan sú að rækjustofninn hefur hrunið þar sem lúsaeitur hefur verið notað.

Það væri mun gagnlegra fyrir þann iðnað sem Kristján Þ. Davíðsson talar fyrir að beina kröftum sínum að þessum grafalvarlegu umhverfisáhrifum fremur en að blanda íslensku sauðkindinni að ósekju inn í umræðuna.”