Þorkell Daníel Eiríksson, fiskeldisfræðingur og bóndi varar eindregið við áætlunum um aukið fiskeldi í sjókvíum við Ísland. Í viðtali við Fréttablaðið segir Þorkell Daníel m.a.:

„Fyrirtækin sjálf eiga að bera ábyrgð á að tilkynna slysasleppingar sem er náttúrulega einn þáttur í þessum skrípaleik. Ég hef kynnst og skoðað vel fiskeldið í Etna í Noregi. Þar var áin hrunin, það var orðið svo mikið af eldisfiski sem var kominn þangað. Áin var girt af og hver einasti fiskur handleikinn og sleppt aftur upp ef hann var í lagi, til að reyna að ná aftur upp hreinum stofni,“ segir hann, og bindur vonir við að þessu fordæmi verði ekki fylgt.

„Mig langar ekkert að sjá einhvern reyna að stöðva ár eins og Þjórsá, Blöndu eða Ölfusá. Það er alltaf verið að fela vandann og þetta ekki rætt, en það er vitað að lax mun sleppa og þá væri gott að ræða hvað er það sem við getum gert. Það er svolítið merkilegt með Íslendinga að við viljum alltaf finna upp sama hjólið og hinir gáfust upp á fyrir löngu síðan.“