Ef fjós brennur og dýr brenna inni tölum við um harmleik en ekki lífmassa sem tapast. Þessi orð Trygve Poppe, fyrrverandi prófessors við Dýralæknaháskóla Noregs, í samtali við NRK. Poppe var að ræða hörmungarástandið í sjókvíaeldi í Noregi vegna þörungablómans. Hann bendir á að hamfarirnar í norsku laxeldi séu okkur mikilvæg áminning um hversu harkalegur iðnaður sjókvíaeldi er.

Staðfest er að um átta milljón eldislaxar hafa kafnað í kvíum vegna þörungarblómans, sem ekki sér fyrir endann á.

Villtur lax getur flúið þörungarblómann. Eldislaxinn getur sér enga björg veitt þar sem hann er fastur í kvíunum.

Það er kaldranaleg staðreynd að sjókvíaeldisfyrirtækin, hér á landi og annars staðar, gera beinlínis ráð fyrir því í rekstraráætlunum sínum að um 20 prósent af þeim eldisdýrum sem fara í sjókvíarnar lifi ekki af þær aðstæður sem þeim eru búnar.

Þetta eru óásættanlegar aðferðir við matvælaframleiðslu.