Hér er afar góð hugvekja eftir Odd Hjaltason sem hann birti á Facebook. Við mælum eindregið með lestri:

Mörg fyrirheit íslenskra stjórnvalda um umhverfisvernd eru tilhæfulaus þegar íslenskir stjórnmálamenn sniðganga rannsóknir fræðimanna og heilbrigða skynsemi. Fyrir liggur frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, þ.e. áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir ofl. Frumvarpið snýst fyrst og fremst um laxeldi í sjó með það í huga að stórauka eldið hérlendis og ber einkenni þess að hvergi er hugað að neikvæðum áhrifum frá laxeldi í opnum sjókvíum eða fjárhagslegu tjóni sem það kann að valda. Neikvæðra fjárhagslegra áhrifa frá laxeldi mun gæta í mörgum atvinnugreinum, m.a. sportveiði, ferðamannaiðnaði og jafnvel sjávarútvegi, ef markmið og áætlanir stjórnmála- og eldismanna um stóraukið eldi verða að veruleika.

Sú mynd sem laxeldi í opnum sjókvíum er að birtast öðrum þjóðum er neikvæð þegar horft er á umhverfisáhrif á lífríkið og erfðablöndun eldislaxa við náttúrulega stofna. Svo slæm að flestar þessar þjóðir eru byrjaðar að banna frekara eldi í opnum sjókvíum og líta frekar til landeldis eða eldis í lokuðum sjókvíum. Markmið íslenskra stjórnvalda er þrátt fyrir þessar staðreyndir að stórauka eldi laxfiska í opnum sjókvíum, það mikið að úrgangur frá eldinu verður álíka eða meiri en öll skolpmengun landsmanna. Eyðilegging eða skemmd sem verður í umhverfi og lífríki sjávar vegna laxeldis í opnum sjókvíum mun alltaf hafa ákveðinn fórnarkostnað í för með sér, sem getur jafnvel verið óbætanlegur og þegar upp er staðið fellur kostnaðurinn sjaldnast eða aldrei á þá sem tjóninu valda.

Í rannsókn, ,,Living Planet Report 2018‘‘, sem 59 vísindamenn um allan heim unnu fyrir World Wildlife Fund kemur fram að mannkyn hafi þurrkað út 60% af öllum villtum spenndýrum, fuglum fiskum og skriðdýrum frá árinu 1970. Ísland er eitt af fáum ríkjum, sem getur státað sig af því að flestir stofnar í laxveiðiám landsins eru af mörg þúsund ára gömlum stofnum Atlashafslaxa. Á meginlandi Evrópu hafa margir stofnar laxa orðið undir, jafnvel útdauðir, annað hvort vegna mengunar eða að náttúrulegir stofnar laxa hafa erfðablandast strokulöxum úr opnum sjókvíum. Mörg þekkt dæmi eru um að strokufiskar frá laxeldi í opnum sjókvíum séu byrjaðir að nema land í íslenskum laxveiðiám.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir fiskifræðingur og forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum telur að afkoma sjávardýra og fiskistofna í sjó byggist á tveimur megin þáttum, annars vegar hlutfalli óspilltra búsvæða á grunnsævi og hins vegar hitastigi sjávar. Þorskseiði og seiði annarra sjávarfiska leita skjóls og ætis á botni grunnsævis við strendur landins og því má öllum vera ljóst að sjókvíaeldi hefur neikvæð áhrif að einhverju eða miklu leyti á afkomu seiðanna í nánd við sjókvíarnar. Marfló og sandsýli eru megin fæða sjóbirtings og sjóbleikju. Marfló er ein af fæðutegundum náttúrulegra laxfiska sem gerir kjötið rautt í þeim, en lifir ekki í nánd við sjókvíar vegna mengunar frá eldinu. Framangreindir þættir eru að miklu leyti órannsakaðir hérlendis og ekki metnir sem slíkir í burðarþolsmati íslenskra fræðimanna. Ennfremur ætti flestum að vera ljóst að mengun sjávar er mikil og þolmörk sjávar eru óljós, einkum þegar tekið er tillit til aukinnar mengunar sem kemur frá sjókvíaeldi. Burðaþolsmöt sjávar vegna fiskeldis byggjast þannig að miklu leyti á huglægu mati fræðimanna þar sem þeir geta ekki horft til marktækra rannsókna þegar þær vantar.