Fagfjölmiðillinn Intrafish birtir í dag ítarlega fréttaskýringu yfir hversu gríðarlegt magn hefur sloppið af eldislaxi úr sjókvíum undanfarin 20 ár. Samkvæmt opinberum skrám er þetta um 4,7 milljónir fiska (er að öllum líkindum mun meira), þar af hafa tæplega tvær milljónir sloppið úr sjókvíum við Noreg og Skotland.

Í umfjöllun Intrafish er varpað fram þeirri hugleiðingu hvort dýrar fyrirbyggjandi aðgerðir borgi sig fyrir sjókvíaeldisfyrirtækin þegar þau fá sitt tjón bætt af tryggingarfélögum.

Full ástæða er fyrir þessu hugleiðingum fjömiðilsins því ekkert lát er á stórslysum í sjókvíaeldi hvarvetna þar sem það er stundað, hvort sem það er við Noreg, Skotland, Chile eða Ísland. Fyrirtækin fá sitt tjón bætt, en skaðinn er skeður fyrir umhverfið og lífríkið.

Athyglisvert er að bera saman sjónarmið framkvæmdastjóra laxeldisfyrirtækisins Grieg Seafood Shetland, sem rætt er við í úttekt Intrafish, og talsmanna sjókvíeldisfyrirtækjanna hér á Íslandi. ÓIíkt íslenskum kollegum sínum hefur Grant Cumming, framkvæmdastjóri skoska fyrirtækisins, miklar áhyggjur af því sem gerist þegar eldislax sleppur úr kvíum. „Þegar flótti á sér stað eru megin áhyggjuefnin þau að eldisfiskur blandist villtum stofnum og breyti þannig staðbundinni erfðagerð þeirra,“ segir Cumming í viðtali við Intrafish og bendir jafnframt á að nánast ómögulegt sé að útiloka að fullu að fiskur sleppi. Hér á landi láta sjókvíaeldismenn hins vegar eins og þetta sé ekkert sem áhyggjur þurfi að hafa af.

Myndin er frá Intrafish og hér er hlekkur á greinina en gerast þarf áskrifandi að miðlinum til að lesa hana.