Umhverfisráðherra talar hér af skynsemi um þetta mikla hitamál. Auðvitað snýst baráttan gegn margföldun á laxeldi í opnum sjókvíum um að þessum mengandi iðnaði verði búinn lagarammi sem tryggir að hann skaði ekki umhverfið og lífríkið.
Töluvert vantar upp á að svo sé og ekki síður að þær stofnanir sem sinna eftirliti með sjókvíaeldinu tryggi að núverandi reglum sé fylgt. Arnarlax setti til dæmis út eldislax í kvíar á svæði sem átti samkvæmt starfsleyfi félagsins að hvíla að lágmarki í sex til átta mánuði, aðeins þremur mánuðum eftir að fiskur var þar í kvíum.
Þetta er staðfest brot en hins vegar hefur ekkert verið aðhafst nú ríflega fjórum mánuðum eftir að fyrirtækið hóf þessa háttsemi.
Við hjá IWF tökum heilshugar undir eftirfarandi orð umhverfisráðherra:
„Langtímaverkefnið er skýrt: Að sjá til þess að íslenskt fiskeldi þróist í átt að því öruggasta sem hægt er út frá umhverfissjónarmiðum, hvort sem varðar laxalús, erfðablöndun, úrgang frá eldi eða annað. Að mínu mati þarf að styðja betur við þróun fleiri aðferða í fiskeldi en ekki einungis að vera með sjókvíaeldi í opnum kvíum. Það er ekki bara mikilvægt fyrir náttúruna heldur einnig byggðir landsins. Við verðum að vera meðvituð um áhættuna sem við tökum gagnvart náttúru landsins og draga úr umhverfisáhrifum laxeldis með öllum tiltækum leiðum.“