Enn berast hrikalegar fréttir af gegndarlausum fiskidauða í sjókvíaeldi við Ísland. Staðfest hefur verið að um 52 þúsund eldislaxar drápust í sjókví í Berufirði. Net þrengdu að fiskinum sem varð til þess að að hreistur rofnaði. Bakteríur grasseruðu og afleiðingarnar voru opin sár sem drógu fiskinn til dauða, þau má sjá á meðfylgjandi mynd. Hefur verið ömurlegur dauðdagi fyrir fiskinn.

Staðfest hefur verið af forsvarsmönnum eldisfyrirtækja að þeir gera ráð fyrir að um 20 prósent af fiski lifi ekki af vistina í sjókvíunum. Það hlutfall passar við dauða í sjókvíaeldi í öðrum löndum.

Í Berufirði var búið að ala fiskinn upp í 5 til 6 kíló þegar hann drapst. Alls voru þetta 285 tonn og var hluti urðaður í Lóni.

Þetta er hroðaleg sóun og skelfilega ómanneskjulegur búskapur.

Skv. frétt RÚV:

“Alls drápust 285 tonn af eldislaxi, hátt í 52 þúsund fiskar, í Berufirði í byrjun árs. Fram kemur í upplýsingum frá Matvælastofnun að tjónið megi rekja til óveðurs í desember en þá þrengdu nót og fuglanet að fiskinum sem skaddaðist og varð sýklum að bráð.”