Í kjölfar fréttar Morgunblaðsins um helgina um vandræðaástand í sjókvíum Arnarlax sendum við hjá IWF fyrirspurn til MAST og óskuðum eftir skýringum á því af hverju stofnunin hefði svarað fyrirspurn okkar í seinni hluta janúar um ástand sjókvía og eldisdýra á þá leið að ástandi fisksins væri ekki hætta búin.
Í dag fengum við svar í tölvupósti frá fulltrúa yfirdýralæknis þar sem kemur fram að „þau afföll sem hafa verið og meðferð eldisdýrana hafa ekki verið með þeim hætti að ástæða væri til að tilkynna um slíkt.“
Í meðfylgjandi nýrri frétt Stundarinnar, sem birtist einmitt í dag líka, er hins vegar haft eftir yfirdýralækni MAST að laxadauðinn sé með því versta sem hann hafi orðið vitni að á Vestfjörðum eftir að Arnarlax hóf starfsemi þar.
Og er þá spurt: Hvenær verða afföll óeðlileg ef þau eru það ekki þegar laxadauðinn er „með því versta“ sem yfirdýralæknir hefur orðið vitni að?
Er starfsfólk MAST ekki á villigötum ef það telur ekki ástæðu til að upplýsa almenning, þegar eftir því er gengið, að ástandið sé ekki bara slæmt, heldur ,,með því versta“?