Frekjan og yfirgangurinn í forsvarsfólki sjókvíaeldisins á sér ýmsar birtingarmyndr.

Sigurður Guðmundsson, einn af virtustu listamönnum þjóðarinnar, segir að listaverk hans á Djúpavogi hafi lengi verið þeim iðnaði til ama og nú eigi að færa það, þvert gegn hans vilja.

Ekki er ljóst hvert listaverkið verður flutt, segir í frétt Vísis, en Sigurður segir að Borgarfjörður eystri komi til greina.

„Verkið stendur við sjávarsíðuna og var sett upp árið 2009 en um áratug síðar hófst fiskeldi í námunda við verkið. Sigurður segir að það hafi alls ekki truflað hann að verið væri að vinna fisk hinum megin við götuna.

„Síðan koma upp raddir um það frá fiskeldinu held ég, eða fólki tengdu því, að ég myndi færa eggin – og það er löngu áður en þetta slys varð – eitthvert út í móa. En þau virka ekki á öðrum stað, þá yrði alveg eins gott að henda þeim. Ef menn elska peninga þá væri mjög slæmt að henda eggjunum í burtu því það dregur að sér ógrynni ferðamanna á hverju ári því þetta er mjög vinsælt verk þótt ég sem höfundur þess hafi ekki verið að pæla í slíkum vinsældum þegar ég geri verkið fyrir þrettán árum síðan.“

Sigurður segir að staðsetning verksins sé hluti af verkinu sjálfu. Djúpivogur er eftirsóttur staður hjá fuglaáhugamönnum.

„Það er kallað á ensku „site specific“ en það er þegar verk eru gerð sérstaklega fyrir aðstæðurnar sem eru sjónrænar í mínu tilfelli. Það er hafið og þetta fallega umhverfi. Fólk kemur þangað og þarna setjast fuglarnir. Sumir bíða eftir því að rjúpan setjist á rjúpueggið eða hrossagaukurinn á hrossagaukseggið. Þetta er mjög vinsælt og það er búið að taka milljónir ljósmynda og dreifa þeim um heim allan.“

Það á eftir að koma í ljós hvert listaverkið verður flutt en Sigurður segir að Borgarfjörður eystri komi til greina.

„Og láta þá túristaumferðina fara þangað í staðinn fyrir hingað. Þá getur fiskeldið gert allt sem það vill. Það yrði stór kostur fyrir þá en skyggir pínulítið á menningarhliðina á Djúpavogi. Ekki pínulítið heldur stórskyggir á hana því við höfum verið með öflugt fólk á bak við okkur, menningarfólk sem er komið hingað til að byggja upp sterka menningu og ekki bara myndlistarlega heldur á öllum sviðum listanna hér á Austurlandi.“