„Framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldistöðva, Kristján Davíðsson, vandaði Pálma Gunnarssyni, tónlistarmanni og baráttumanni fyrir náttúruvernd, ekki kveðjurnar í grein hér í blaðinu á dögunum. Er Kristján við sama heygarðshorn og ýmsir aðrir sjókvíaeldismenn sem virðast standa í þeirri trú að yfirgangur sé leiðin til þess að þröngva þessum iðnaði upp á þjóðina með tilheyrandi vá fyrir umhverfi og lífríki Íslands,“ úr grein Freys Frostasonar arktitekts og formaður stjórnar Icelandic Wildlife Fund í Fréttablaðinu í dag.
Freyr segir einnig í grein sinni:
„Við hjá IWF höfum bent á að Norðmenn stefna að því að ganga svo frá eldisstöðvum sínum að úrgangur verður hreinsaður, engin laxalús verði í kvíunum og enginn fiskur sleppi. Þessum markmiðum verður náð mishratt en eigi síðar en fyrir 2030 samkvæmt vegvísi samtaka norskra iðnfyrirtækja.
Norðmenn eru þarna að koma skikki á sinn laxeldisiðnað í kjölfar mikilla búsifja fyrir náttúru landsins. Auðvitað á Ísland að hefja uppbyggingu í eldi með þessum skilyrðum fremur en að fara í aðgerðir þegar skaðinn er skeður eins og er tilfellið í Noregi.“