Byggingarleyfi fyrir eldissvæði við Sandeyri í Ísafjarðardjúp eru ekki í höfn einsog Daníel Jakobsson hjá Arctic Fish hefur fullyrt í fjölmiðlum.
Sandeyrarsvæðið er innan hvíts ljósgeira frá Óshólavita en siglingar skipa í hvítum geira vita eiga að vera með öllu hindranalausar og öruggar samkvæmt 4. gr. laga um vitamál (nr 132/1999) og SOLAS alþjóðasamningnum um öryggi mannslífa á hafinu, sem Ísland er aðili að.
Daníel er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sem er dótturfélag skráðs félags á markaði þar sem strangar reglur gilda um upplýsingagjöf og er beinlínis óheimilt að veita rangar upplýsingar opinberlega.
Röng upplýsingagjöf um mál sem geta haft áhrif á verð viðkomandi félags og væntingar varðar við lög um markaðsmisnotkun.
Helstu verðmæti sem sjókvíaeldisfyrirtækin búa yfir eru einmitt leyfi fyrir starfseminni.
Fróðlegt verður að sjá hvað gerist næst.
„Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur ekki gefið út byggingarleyfi vegna sjókvía. Stofnunin tilkynnti í síðustu viku um breytta stjórnsýsluframkvæmd þar sem segir að frá og með 15. febrúar verði gerð krafa um byggingarleyfi vegna nýrra byggingarleyfisskyldra sjókvía sem rekstraraðilar hyggjast setja niður utan netlaga,“ segir í svari HMS, sem kom frá Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, aðstoðarforstjóra.
Fréttastofa spurði einnig að því hvort að einhverjar umsóknir hefði borist.
„Engin byggingarleyfi hafa verið gefin út af stofnuninni en ein umsókn hefur verið í úrvinnslu og barst hún þann 3. nóvember sl. Er hún enn til vinnslu. Samhliða því vinnur stofnunin að því að útfæra málsmeðferð og verkferla vegna leyfisveitingarinnar, en sjókvíar eru ekki hefðbundin mannvirki og þurfti því að aðlaga ferla að því.“