Enn og aftur eru sjókvíaeldisfyrirtækin að dæla eitri og lyfjum í sjóinn fyrir vestan.
Allt er á kafi í lús í tugum sjókvía í þremur fjörðum: Dýrafirði, Patreksfirði og Tálknafirði.
Í tveimur síðarnefndu fjörðunum varð ástandið óviðráðanlegt í fyrra og endaði með neyðarslátrun og förgun rúmlega 1,7 milljón eldislaxa vegna þessu hversu hræðilega þeir voru útleiknir.
Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
Fjallað var um lúsapláguna fyrir vestan í Vísi:
Fisksjúkdómanefnd hefur mælt með að fiskeldisfyrirtækin fyrir vestan fái að nota eitur til að eiga við laxalús. Þorvaldur H. Þórðarson yfirdýralæknir segir menn ekki vilja sjá stöðu sem uppi var í fyrra og lúsinni fjölgi.
Nefndin hefur afgreitt nokkur erindi þar sem þau ráðleggja Matvælastofnun vegna umsóknar um leyfi til að lúsameðhöndla eldislaxa í sjókvíaeldi.
Um er að ræða umsóknir sem varða lúsameðhöndlun á eldislaxi með Deltametrin í baðlausn, sem mun vera mest notaða skordýraeitur heims, fyrir meðal annars 8 kvíar í Tálknafirði en einnig í Patreksfirði og Dýrafirði. Í tveimur síðarnefndu fjörðunum varð ástandið óviðráðanlegt í fyrra og endaði með neyðarslátrun á 1,7 milljón eldislaxa og förgun þeirra.
…
Þorvaldur H. Þórðarson yfirdýralæknir er formaður nefndarinnar og hann segir þessa ráðleggingu hugsaða sem svo að böðun með lyfjum þarfnist ákveðinnar aðferðar.
„Það er ekki beint lyfið sem hefur áhrif á fiskinn, heldur aðferðin. Yfirleitt er nótin dregin saman til að minnka rúmmálið og það getur haft áhrif á fiskinn, vatnsmagn og svo súrefni.“