„Svandís Svavarsdóttir tók við nánast fullkomnu þrotabúi í þessum málaflokki þegar hún varð matvælaráðherra fyrir rúmlega ári. Staðan er nú sú að eftirlitið hefur að stórum hluta verið fært til fyrirtækjanna sjálfra. Þetta þýðir að eftirlitsstofnanir almennings þurfa að treysta innra eftirliti sjókvíaeldisfyrirtækjanna til að upplýsa um brot og frávik í starfseminni. Það er furðuleg hugmynd að láta fyrirtæki, sem hafa gríðarlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, sjálf annast eftirlit með sér. Við brot og frávik geta þau misst umhverfisvottanir og viðskiptasamninga,“ segir Jón Kaldal frá IWF í þessari frétt Fréttablaðsins.
Í sömu frétt er rætt við Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóra Fiskeldis Austfjarða og stjórnarmann í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem þykist fagna skýrslunni.
Þau viðbrögð eru hjákátleg í ljósi þess að Jens Garðar og félagar í SFS eru nýbúin að gráta út niðurfellingu á löngu boðaðri gjaldtöku á sjókvíaeldið, sem hefði skilað ríkissjóði 400 milljónum króna. Og það í ástandi þar sem stjórnsýsla, eftirlit, náttúruvöktun og rannsóknir eru í molum vegna skorts á fjármagni.
Í viðtalinu segir Jón Kaldal að vandamálið sé víðtækt.
„Lögunum um fiskeldi var breytt árið 2019 og lögð sérstök áhersla á að auka eftirlit með sjókvíaeldinu og áhrifum þess á náttúruna. Þessum lagabreytingum fylgdu hins vegar ekki þær fjárveitingar sem þurfti til svo eftirlitsstofnanirnar og Hafrannsóknastofnun gætu sinnt hlutverkum sínum. Þetta voru ótrúlega slöpp vinnubrögð af hálfu þáverandi ráðherra, sem var Kristján Þór Júlíusson,“ segir Jón. …
Hann segir að það þurfi einhver að axla ábyrgð í þessu máli.
„Hvernig staðið hefur verið að málum er ekki bara fúsk. Þarna voru teknar ákvarðanir að yfirlögðu pólitísku ráði, með því að veikja þær stofnanir almennings sem eiga að sinna eftirliti og rannsóknum. Það hljóta einhver að þurfa að axla ábyrgð á þessum vinnubrögðum. Það er svo sérstakt umhugsunarefni af hverju umhverfisráðherrar undanfarinna ára hafi ávallt bara setið aðgerðalausir hjá.“
Að mati Jóns geta sjókvíaeldisfyrirtækin unað vel við núverandi fyrirkomulag.
„Fyrirtækin í þessum iðnaði ættu að geta verið nokkuð sátt. Þau hafa komist upp með ótrúlega hluti í skjóli þess að eftirlitið með starfseminni er í raun ekki neitt. Viðurlögin sem hægt var að beita þau vegna alvarlegra frávika í rekstri hefðu sannarlega getað verið margfalt meiri.“