Við tökum undir með Veiðifélagi Þverár:
„Því verður ekki trúað að óreyndu að fólk vilji skapa störf í sínu héraði með því að eyða þeim annars staðar á landsbyggðinni og það með iðnaðareldi sem er bein atlaga að náttúru og lífríki Íslands.“
Félög veiðiréttarhafa í lax- og silungsveiði hafa að undanförnu hvert á fætur öðrum mótmælt harðlega sjókvíaeldi á laxfiskum á Austfjörðum og á Vestfjörðum.
„Nú þegar eru meira en 10 milljónir norskra eldislaxa komnar í opnar sjókvíar á þessum svæðum og eru eins og tímasprengjur í náttúru landsins samanber stöðugar fréttir fréttir af umhverfisslysum og óhöppum í eldinu,“ segir í ályktun aðalfundar veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár í Vopnafirði. Búnaður sem notaður sé í sjókvíaeldi standist ekki íslenskar aðstæður.
„Fundurinn mótmælir harðlega fyrirætlunum í frumvarpi til breytinga á fiskeldislögum að rekstrarleyfi verði gefin út til eilífðar (ótímabundin leyfi) sem og að innleiða eigi svokallað innra eftirlit, sem þýðir að eldisfyrirtæki hafi eftirlit með sjálfum sér.“ Aðeins verði sátt um lokuð eldiskerfi í landi eða lokuð kerfi í sjó með geldum laxi.
„Enginn veiðiréttarhafi eða náttúruunnandi getur samþykkt heimild til 4 prósent innblöndunar norskra eldislaxa í villta laxastofna. Engin innblöndun er ófrávíkjanleg krafa. Fundurinn krefst þess, að stöðvuð verði innrás útlendinga til ókeypis nýtingar á sjó í íslenskri landhelgi.“
Aðalfundur Veiðifélags Vatnsdalsár tók í sama streng.