Kaup lífeyrissjóðsins Gildis í norsku móðurfélagi Arnarlax eru með miklum ólíkindum. Þar er verið að nota sparnað íslensks verkafólks til að kaupa fyrir milljarða aðgang að takmörkuðum auðlindum hér við land af Norðmönnum! Sama aðgang og íslenska ríkið afhenti örfáum einstaklingum hér fyrir ekki neitt og þeir seldu með ofsagróða til Noregs.

„Hversu öfugsnúinn getur veruleikinn verið?,“ spyr Arndís Kristjánsdóttir, félagi í IWF, í þessari grein sem birtist hjá Vísi.

„Verðmat hins norska móðurfélags Arnarlax var 50 milljarða fyrir innspýtingu íslenska verkafólksins. Á bak við það eru fyrst og fremst eldisleyfi Arnarlax upp á 25.000 tonn í vestfirskum sjó. Verðmat íslensku leyfanna er því ekki fjarri nýlegum kaupum norska sjókvíaeldisrisans Salmar AS, aðaleiganda Icelandic Salmon AS, á norskum leyfum af norska ríkinu þar sem greiddir voru 30 milljarðar fyrir 8.000 tonna leyfi. Þeir 30 milljarðar runnu í norska ríkiskassann, sameign norska verkalýðsins og annarra þar í landi. 

Á Íslandi er ekkert greitt til ríkisins fyrir úthlutuð eldisleyfi, eldiskvótinn er ókeypis. Íslenskt verkafólk hefur því með sparnaði sínum greitt hinum norsku nýlenduherrum fyrir hlutdeild í íslenskum leyfum sem veitt voru ókeypis. Á sama tíma greiðir norski eigandinn norska ríkinu fyrir viðbótarleyfi í Noregi.“