Þegar við hjá IWF sendum fyrirspurn til MAST í seinni hluta janúar um ástand sjókvia og eldisdýra við landið eftir þá vonsku tíð sem hefur ríkt í vetur, bárust svör um að ekkert óeðlilegt væri þar í gangi. Í þessari frétt sem MBL birti í dag, kemur svo annað í ljós:
„Slátrun lax úr kvíum fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax í Hringdal í Arnarfirði hefur nánast legið niðri undanfarnar vikur með þeim afleiðingum að laxinn hefur verið að safnast upp í kvíunum og drepast í auknum mæli. Arnarlax leitar nú leiða til að auka slátrunarmagn svo hægt sé að tæma kvíarnar. …
Fyrirtækið hefur verið í samstarfi við MAST í hátt í tvær vikur vegna stöðunnar sem komin er upp í Arnarfirði og er afleiðing þróunar sem hófst í byrjun desember. Arnarlax er með lax í fimm kvíum í Arnarfirði og nú hafa safnast upp um fjögur þúsund tonn af laxi sem kominn er yfir 5 kg og því tilbúinn til slátrunar.
…
„Síðan við þessar aðstæður, þegar hiti í sjó er kominn niður í tvær og hálfa gráðu vill fiskurinn oft færa sig niður og þegar þessar óveðurslægðir eru svona djúpar þá eru straumköstin alveg gífurleg. Við þessar aðstæður er lítill hluti fisksins sem nuddar sér við nótina og það er nóg til þess að bakteríur og ákveðnir sýklar sem valda sárum komist í fiskinn. Það getur leitt til dauða á einhverjum vikum,“ …
Bakteríurnar eru að sögn Gísla ekki hættulegar heilbrigðum fiskum heldur séu þær hefðbundnar í þessu umhverfi en geti leitt til veikinda og dauða komist þær í opin sár. Þegar fiskar deyja af slíkum völdum getur það tekið fimm daga og upp í hálfan mánuð þangað til dauður fiskur flýtur upp á yfirborðið og þá þurfi að fjarlægja hann.“