Vaxandi áhyggjur eru víða um heim af því hvaða efni eldisfiskur inniheldur og hvort hann sé fyrir vikið æskileg matvara.
Í sínu náttúrulega umhverfi er laxinn kjötæta, það er hann étur önnur sjávardýr. Eldislax er hins vegar alinn á fóðri sem að stórum hluta inniheldur prótein úr plönturíkinu og uppruni þess er ekki alltaf þekktur.
Í þessari grein sem birtist í Herald Scotland í gær er sagt frá nýrri rannsókn sem var gerð við University of Pittsburgh’s Swanson School of Engineering en í henni kom fram að í fóðri eldisfisks hafa fundist efni sem eiga alls ekki að koma við sögu í matvælaframleiðslu. Þar á meðal eru gerviefni sem hafa verið bönnuð í Evrópu frá 2004. Efnin eru í fóðri sem er flutt frá löndum utan álfunnar og geta þannig komist bakdyramegin inn í fæðukeðjuna í gegnum meðal annars neyslu á eldislaxi, samkvæmt frétt Herald Scotland.