Vatnsdalurinn er heilagur. Við stöndum með bændafjölskyldum í dalnum, lífríkinu og náttúrunni.

Þetta má aldrei verða.

Í frétt RÚV segir:

„Ég segi það bara klárt hvernig ég met þetta að Vatnsdalsá verður ekki virkjuð,“ segir Kristján Þorbjörnsson, formaður veiðifélagsins í Vatnsdalsá í Húnavatnssýslu á Norðurlandi, þegar hann er spurður um skoðanir sínar á fyrirhugaðri virkjun ríkisfyrirtækisins Orkusölunnar í ánni. Orkusalan er ríkisfyrirtæki í eigu Rarik ohf. Vatnsdalsá er þekkt og gjöful laxveiðiá.

Frétt um virkjunina birtist á forsíðu Morgunblaðsins þann 8. október og vakti athygli og furðu hjá ýmsum landeigendum í Vatnsdal. Það voru fyrstu tíðindin sem þeir höfðu heyrt um virkjunina. Fréttin snerist um að Orkusalan hefði keypt jörðina Forsælu sem er ofarlega í Vatnsdal og íhugaði að byggja þar virkjun. Kaupverðið á jörðinni var tæplega 100 milljónir króna.

Kristján Þorbjörnsson segir að afar litlar upplýsingar liggi fyrir um virkjunina og að veiðifélagið í Vatnsdalsá hafi ekki tekið neina formlega afstöðu til málsins en að ljóst sé að afla þurfi samþykkis félagsins áður en hafist verður handa. „Landeigendur að Vatnsdalsá eru á milli 50 og 60. Þeir hafa með sér félag sem er veiðifélag Vatnsdalsár sem nú hefur starfað í tæp 100 ár. Það var stofnað af forfeðrunum til að standa vörð um Vatnsdalsá og það hefur gengið vel hingað til. Ég hef enga trú á því að nokkur einasti landeigandi hafi áhuga á virkjun og þar með kemur það ekki til mála.“

Þeir Kristján og Magnús hjá Orkusölunni hafa ólíkar hugmyndir um þetta þar sem raforkufyrirtækið telur að það þurfi ekki beinan stuðning frá öðrum landeigendum en þeim sem eiga land að virkjunarsvæðinu sjálfu. „Þetta virkar í raun og veru þannig að við þurfum að tryggja okkur vatnsréttindin til raforkuframleiðslunnar á þeim jörðum sem hafa aðgengi að fallinu. […] Þeir eru tiltölulega fáir í þessu tilfelli,“ segir Magnús.

Landeigendurnir sem vísað er til eru þrír: Sjálfseignarstofnun í eigu sveitarfélagsins Húnaþings, íslenska ríkið og Ingimar Jóhannsson, eigandi jarðarinnar Grímstungu í Vatnsdal.