Ágætis grein eftir Gísla Sigurðsson, sér í lagi þau áhrif sem fyrirhugað laxeldi sjó getur haft á atvinnu af smábáta og sjóstangaveiði, æðarrækt og þjónustu við ferðamenn á Vestfjörðum.

Í greininni, sem birtist í Fréttablaðinu segir m.a.:

„Á Vestfjörðum er fjöldi fólks sem hefur atvinnu af smábátaveiðum og sjóstangaveiði, æðarrækt og þjónustu við ferðamenn sem sækjast eftir að komast í óspillta náttúru þessa einstaka landshluta. Að ekki sé talað um saltverksmiðjuna á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp – sem yrði fyrsta fórnarlamb áformaðs fiskeldis í Djúpinu vegna mengunar. Talsmenn norsku aflandsfyrirtækjanna láta eins og þetta fólk sé ekki til og treysta á að það sjálft þori ekki að láta í sér heyra af ótta við harkaleg viðbrögð þeirra sem betur mega þar vestra – og í Noregi. Valdhrokinn og yfirgangurinn er svo mikill að um allt land hræðist fólk atvinnumissi ef það dirfist að tala máli náttúrunnar og hagsmuna þeirra fjölmörgu sem hafa afkomu sína og lífsánægju af því að henni sé ekki spillt.

Við verðum að vona og treysta því að lýðræðislega kjörin stjórnvöld í landinu láti ekki stjórnast af sérhagsmunum norskra aflandsfyrirtækja og hafi afl til að fylgja þeim lögum sem í gildi eru, virða alþjóðlega sáttmála um vernd villtra dýra og miða ávallt við almannahag og bestu fáanlegu þekkingu á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis. Fiskeldi er ágæt leið til að framleiða matvæli en það á heima í lokuðum kerfum sem menga ekki umhverfið.“