Í gær vannst geysilega mikilvægur áfangasigur þegar Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi nokkur leyfi fyrir sjókvíaeldi.
Með þessari ákvörðun hefur úrskurðarnefndin tekið úr sambandi sjálfsafgreiðslufæribandið sem sjókvíaeldisfyrirtækin hafa haft aðgang að hjá Matvælastofnun (MAST) og ýmsum öðrum opinberum stofnunum sem eiga að gæta hagsmuna almennings, en hafa ekki gert það.
Einsog við bentum á hér á þessari síðu, þegar við sögðum frá kærunni í sumar, gaf MAST meðal annars út rekstrarleyfi til Arnarlax þvert á afgerandi mat Samgöngustofu um að óheimilt væri að veita leyfi á tveimur eldissvæðanna með tilliti til siglingaöryggis.
Fulltrúar MAST létu einsog þetta væru eðlileg vinnubrögð sem þau auðvitað voru ekki. Gleymum því ekki, kæru vinir, að stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Þar vinnur fólk sem ákveður hvernig valdi þessara opinberu stofnana er beitt.
Grafalvarlegt mál er hvernig þar hefur verið haldið á málum.
Til hamingju öll!
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi hluta af rekstrarleyfi sem MAST gaf út í febrúar til Arctic Sea Farm fyrir sjókvíaeldi á þremur svæðum í Ísafjarðardjúpi, Arnarnesi, Kirkjusundi og Sandeyri. Leyfið í Arnarnesi og Kirkjusundi var afturkallað en stendur við Kirkjusund. Rekstrarleyfi til fiskeldis á öðrum þremur stöðum í Ísafjarðardjúpi, Óshlíð, Eyjahlíð og Drangsvík, sem gefið var út til Arnarlax í maí síðastliðnum, var einnig afturkallað.
…
Arctic Sea Farm fékk leyfi þann 29. febrúar síðastliðinn fyrir 8000 tonna hámarkslífmassa af regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi í Arnarnesi, Kirkjusandi og Sandeyri, og þar af 5200 tonnum af frjóum laxi.
Arnarlax fékk þann 21. maí síðastliðinn rekstrarleyfi fyrir 10,000 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi á þremur svæðum, Óshlíð, Eyjahlíð og Drangsvík.
Leyfið fyrir eldið við Sandeyri stendur óraskað en önnur voru felld úr gildi.
…
Hvað varðar svæðið við Óshlíð taldi úrskurðarnefndin að ekki yrði litið hjá svo afdráttarlausri neikvæðri afstöðu til áhrifa á siglingaöryggi sem finna mætti í áhættumati fyrir svæðið, en skipaumferð þar væri umtalsverð. Ekki hafi verið skilyrði til að gefa út rekstrarleyfi sem heimili fiskeldi á svæðinu við Óshlíð.
Í Ísafjarðardjúpi eru sérstakar aðstæður, þar sem fleiri starfandi rekstraraðilar eru þar samtímis en í öðrum fjörðum og hafsvæðum hér við land.
Þrátt fyrir það segir að í áliti úrskurðarnefndarinnar yrði ekki ráðið af greinargerð MAST að nokkurt heildstætt vegið mat hefði farið fram á þeirri auknu áhættu af útbreiðslu dýrasjúkdóma og sníkjudýra sem leitt gæti af því að veita greinda undanþágu frá þeirri viðmiðun um 5 km fjarlægðar milli ótengra aðila.
„Yrði af þeirri ástæðu og með vísan til þeirra ríku skyldna sem hvíla á Matvælastofnun við útgáfu leyfa til framkvæmdar sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum, að fella ákvarðanir úr gildi hvað varðar þau tvö eldissvæði í leyfi til Arctic Sea Farm, þ.e. Arnarnes og Kirkjusund og leyfi Arnarlax að öllu leyti,“ segir í tilkynningu MAST.