Rifjum þetta upp þessa frétt Heimildarinnar í tilefni af furðulegri grein matvælaráðherra á Vísi:
Skrifstofustjóri sem stýrði sviði fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu var í margs konar samskiptum við ráðgjafa hjá Arnarlaxi í aðdraganda setningar nýrra laga um laxeldi. Yfirstjórn ráðuneytisins þótti þessi samskipti óeðlileg. Ráðgjafi Arnarlax, sem áður hafði starfað í ráðuneytinu, fékk meðal annars send drög að reglugerð um fiskeldi frá skrifstofstjóranum nokkrum mánuðum áður en þau voru birt opinberlega.
…
Jóhann lét fresta birtingu nýrra laga um fiskeldi sumarið 2019 með því að hringja í Stjórnartíðindi og biðja um þetta. Með því að láta fresta birtingu laganna kom Jóhann í veg fyrir að lögin öðlust gildi. Þannig gekk hann erinda laxeldisfyrirtækja, meðal annars Arnarlax, sem gátu þá skilað inn í gögnum um ný laxeldisáform sín á grundvelli eldri laga um fiskeldi sem ekki voru eins og ströng og nýju lögin sem hefðu átt að hafa tekið gildi ef Jóhann hefði staðið rétt að birtingu þeirra. …
Ráðgjafinn sem starfaði fyrir Arnarlax og var áður í ráðuneytinu heitir Baldur Pálmi Erlingsson og var lögfræðingur í ráðuneytinu. Hann var meðal annars formaður opinberrar nefndar um stefnumótun í fiskeldi þegar hann var starfsmaður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Eftir að hann hætti þar fór hann að vinna sem ráðgjafi fyrir Arnarlax. …
Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um laxeldi var fjallað um þetta inngrip Jóhanns var mál hans sagt vera „alvarlegt“ og var þar upplýst að háttsemi hans hefði verið kærð til lögreglunnar. „Ríkisendurskoðun telur alvarlegt að birtingu laganna hafi verið frestað með þeim hætti sem raun ber vitni. Umrædd töf var til þess fallinn að grafa undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af hálfu stjórnvalda.“
Rannsóknin á máli Jóhanns var látin niður falla hjá Héraðssaksóknara þar sem ekki þótti sýnt að hann hafi ætlað að brjóta af sér í starfi.