Þegar smellt er á hlekkinn sem hér fylgir er hægt að skoða ýmsar upplýsingar um Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Skilgreint markmið sjóðsins er að „lágmarka umhverfisáhrif af völdum sjókvíaeldis“.

Sjóðurinn greiðir kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Stofnanir, fiskeldisfyrirtæki, einstaklingar og lögaðilar geta sótt um styrki til hans.

Á þessu ári úthlutar sjóðurinn rétt tæplega 190 milljónum króna og fer sú upphæð alfarið til þriggja verkefna á vegum Hafrannsóknastofnunar:

– Sjálfbærni og vöktun fiskistofna í Breiðdalsá á Austurlandi.
– Vöktun á umhverfisáhrifum.
– Burðarþol íslenskra fjarða.

Hægt er að skoða umsóknir í sjóðinn skipt eftir árum. Það vekur til dæmis athygli að Náttúrustofa Vestfjarða hefur í tvígang sótt um styrk, en ekki fengið, til rannsókna á „Plastlosun frá sjóeldi“ (2022) og „Plast hafið: Er sjókvíaeldi að auka magn örplasts í Ísafjarðardjúpi?“ (2023).

Við vitum reyndar svarið við þessum rannsóknaspurningum. Sjókvíaeldi losar gríðarmikið plast í hafið. Það sem þarf hins vegar að rannsaka og fá svör við er hversu umfangsmikil þessi plastmengun er. Einsog staðan er nú er það óþekkt.

Eins furðulega og það hljómar þá er ekki gerð tilraun til að áætla magn plastmengunar í burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar á fjörðum vegna sjókvíaeldis. Þá hefur Umhverfisstofnun ekkert látið þessa mengun sig varða.

Möguleg skýring er að þessar opinberu stofnanir séu einfaldlega á eftir þeirri vitundarvakningu sem hefur orðið á undanförnum árum vegna gegndarlausrar plastnotkunar.

Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum höfum ítrekað vakið athygli á þessari stöðu í umsögnum okkar til stofnana og ráðuneyta.