Við hjá IWF höfum skilað umsögn til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um tillögu þess að burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar ásamt umhverfismatsskýrslu.

Ráðuneytið og Hafrannsóknastofnun fengu VSÓ ráðgjöf til að vinna umhverfismatsskýrsluna. Skýrslan er svo ónákvæm og full af rangfærslum að það er hneyksli. Leggur IWF því til í umsögn sinni að skýrslunni verði hafnað og málið tekið upp í heild að nýju.

í skýrslu VSÓ er því til dæmis haldið fram að aðeins hafi þurft að beita lyfjameðhöndlun vegna laxalúsar fimm sinnum á landsvísu. Þetta er rangt og með nokkrum ólíkindum að þessu sé haldið fram þegar hin rétta tala er rúmlega fjórum sinnum hærri.

Frá árinu 2017 hefur MAST gefið út 21 staðbundið leyfi fyrir eitrun eða notkun lyfjafóðurs vegna lúsar (fiski- eða laxalúsar) í sjókvíum.

Aðeins nú haust, í september og október, hafa verið gefin út leyfi fyrir eitrunum og lyfjafóðrun á sjö eldissvæðum.

Upplýsingar um fjölda leyfa eru opinberar í fundargerðum Fisksjúkdómanefndar Matvælastofnunar (MAST). VSÓ þarf að skýra af hverju rangar upplýsingar eru birtar.

Rangar upplýsingar um notkun þessarar eiturefna eru grafalvarlegt mál og eiga með réttu að duga útaf fyrir til þess að skýrslunni sé hafnað. Noktun eiturefna í sjókvíaeldi hefur afar skaðleg áhrif á lífríkið í nárenni sjókvíanna og þar að auki geta efnin borist langt með straumum.

Áhrif fiski- og laxalúsar í sjókvíaeldi við Ísland hefur kerfisbundi verið vanmetin af opinberum eftirlitsstofnunum með þessum iðnaði og í umhverfismatsskýrslum sjókvíaeldisfyrirtækjanna sjálfra. Afleitt er að sjá sömu vinnubrögð viðhöfð í þessari skýrslu VSÓ, sem unnin er fyrir ANR og Hafrannsóknastofnun og lögð fram í þeirra nafni.

Hægt er að skoða framlögð gögn og umsagnir sem bárust á vefssvæði Samráðsgáttarinnar. Frestur til að skila umsögnum rann út í gær.