Svona var ástandið við Langadalsá þegar hópur evrópsks fjölmiðlafólks kom þar við. Pallurinn við veiðihúsið fullur af eldislaxi sem staðarhaldari hefur ekki haft undan að fjarlægja úr ánni.

Fulltrúi barattusystkina okkar hjá NASF, Elvar Örn Fridriksson, er þarna að útskýra fyrir fjölmiðlafólkinu hversu miklar hörmungar þessir atburðir eru fyrir villta laxastofn Íslands.

Vísir fjallaði um bókina og heimsókn erlendra blaðamanna í tengslum við útkomu hennar.

„Ferðin var skipulögð löngu áður en þessar hamfarir vegna eldislaxanna frá Arctic Fisk í íslenskum ám hófust,“ segir Jón Kaldal talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins.

Hann er á heimleið með hóp blaðamanna en Patagonia, sem gefur út bókina þýdda á ensku, skipulagði sértaka ferð um Vestfirði þar sem til stóð að þeir fengju að kynnast íslensku sjókvíaeldi. Og spyrja eldismenn út í starfsemina en þeir lentu þess í stað í miðjum hamförunum. „Mestu kreppu sem þessi sjókvíaiðnaður hefur staðið frammi fyrir og líka, íslenskur laxastofn því þessir storkulaxar fara nú upp allar ár og vill erfðablandast,“ segir Jón.

„Arnarlax gat ekki hitt okkur. Artic Fish vildi ekki taka þátt í panel-umræðum heldur, en fulltrúi þeirra var til í að hitta hluta af fjölmiðlafólkinu án þess að fulltrúar náttúruverndarsamtaka væru viðstaddir,“ segir Jón Kaldal. …

Í stað þess að ræða í rólegheitum og fram og til baka efni bókarinnar lentu þessir blaðamenn í miðjum hamförum. Og eiga alveg örugglega eftir að greina frá þeim í miðlum sínum. …

„Fulltrúar þessa iðnaðar hafa sagt að þeir myndu ekki missa fisk, þeir misstu fisk. Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri hjá Artic Fish sagði að þetta ætti ekki að geta gerst í viðtali hjá Mogganum fyrir tveimur mánuðum. Þrátt fyrir að þetta hafi þá þegar gerst. Og þeir enn að halda því fram að þetta geti ekki gerst. Eldisfiskurinn hefur verið að sleppa látlaust en ekki með eins áberandi hætti og nú.

Þeir sögðu okkur líka að laxalús yrði ekki vandamál í íslensku sjókvíaeldi. Þessi fyrirtæki hafa verið að hella skordýraeitri í sjóinn á hverju ári frá 2017. Þessir fulltrúar sögðu okkur að sjúkdómar yrðu ekki vandamál. Í fyrra þurfti fiskeldi Austfjarða að slátra öllu uppúr sínum kvím vegna þess að blóðþorri, sem er skelfilegur sjúkdómur, kom þar upp.“

„Við erum að endurtaka öll sömu mistök og nágrannaþjóðir okkar. Við höfum leyft þessum iðnaði að ná fótfestu í fjörðunum. Það nýjasta eru þessir norsku kafarar sem mættir eru til lands, eins og í grínmynd, í kafarabúningi með skutla og ætla að hreinsa eldislax úr ám. Ef varnaðarorðum okkar var ekki trúað áður, en þetta er nokkuð sem við höfum verið að benda á um árabil, þá veit ég ekki hvað hægt er að gera til að opna augu ráðamanna okkar.“