Svona er sjókvíaeldi á laxi við Ísland. Aðbúnaður eldisdýranna er svo hræðilegur að þau drepast í stórum stíl í netapokunum.
Þetta er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
Myndirnar sem fylgja frétt Stundarinnar eru skelfilegar.
„Fyrrverandi starfsmaður eins af stóru íslensku laxeldisfyrirtækjunum lýsir laxadauðanum í sjókvíum með eftirfarandi hætti – maðurinn vill ekki láta nafns síns getið: „Þegar laxinn drepst í nótinni þá botnfellur hann. Svo er honum dælt upp af botninum með aðferð sem heitir „lift up“ og þá fer hann í kör. Hluti af þessu er fiskur sem er mjög illa farinn og skemmdur á hausnum, augun farin, en áður en hann drepst flýtur hann upp og getur svamlað í yfirborðinu í jafnvel sólarhring áður en hann drepst. Sá fiskur sem lítur verst út og er í tætlum er fiskur sem er búinn að liggja lengur og flóin er búin að vinna á honum. Fiskurinn verður svona eftir tvo til þrjá daga, roðið er farið af honum og hann verður úldinn. Fiskarnir sem líta betur út eru nýdauðir,“ segir starfsmaðurinn fyrrverandi sem vann meðal annars við að safna dauðfiski úr sjókvíum.“