Erfðablöndun eldislax sem sloppið hefur ur sjókvíaeldi við villta laxastofna í Noregi heldur áfram að vaxa samkvæmt nýjustu rannsóknum norsku Hafrannsóknastofnunarinnar og norsku Náttúrufræðistofnunarinnar (NINA).
Ástandið hefur snarversnað frá 2016 og er ógnvænlegt segja heimamenn.
Staðfest er mikil erfðablöndun á villtum laxi í þriðjungi laxveiðiáa í Noregi. Á sama tíma er einungis þriðja hver laxveiðiá hrein eða að laxastofninn í henni hefur ekki orðið fyrir erfðablöndun af völdum strokulaxa úr eldi.
Í viðamikilli úttekt sem norska Hafrannsóknastofnunin og Náttúrufræðistofnun Noregs hafa gert á ástandinu kemur ofangreint í ljós. Samtals voru laxar rannsakaðir í 250 ám og er úrtakið þá sem nemur 95% af villtum laxi í Noregi. Niðurstöðurnar eru afgerandi. Ánum, eða laxastofnum í þeim er skipt upp í fjórar skilgreiningar. Grænan lit fá ár þar sem ekki greindist erfðablöndun í villta laxinum. Samtals er þar um að ræða 82 ársvæði eða 32,8% af heildinni. Gulan lit fengu þær ár sem greindust erfðabreytingar en óverulegar. Samtals 70 ár eða 28% í þessum flokki. Appelsínugulur litur er merki um töluverðar erfðabreytingar. Í þennan flokk falla 21 vatnasvæði eða 8,4%. Loks er það rauði liturinn. Meiriháttar erfðabreytingar eru staðfestar. Þennan flokk fylla 77 ár eða 30,8%.
Ár sem bera rauðan eða appelsínugulan lit eru 39% af heildinni. Fyrst þegar þessi rannsókn var framkvæmd, árið 2016 mynduðu þessir tveir flokkar samtals 32%. Aukningin er því sjö prósentustig á sjö árum.
Nokkrar af þekktustu laxveiðiám Norðmanna eru nú komnar í rauðan flokk. …
Tekið er fram í skýrslunni að best sé ástandið við austur og suðurströnd Noregs þar sem lítið eða ekkert laxeldi sé stundað í nágrenni ánna. …