Séra Gunnlaugur kveður þétt að orði í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu hjá Vísi í dag, enda tilefnið mikilvægt.
„Íslenskir firðir eru afhentir útlendingunum ókeypis til þess að stunda fiskeldi í opnum sjókvíum. Eldinu fylgir mikil mengun. Talið er að tíu þúsund tonna eldi mengi á við skolpfrárennsli 150 þúsund manna borgar. Þá er útlendingunum leyft að dæla í eldiskvíarnar alls konar eitri til þess að deyfa lús og sjúkdóma – en mega ekki gera það heima hjá sér. Útlenskir eldisrisar eru þar með að breyta austfirskum og vestfirskum fjörðum í rotþrær. Forystufólki ríkisstjórnarinnar virðist líka það vel og afhendir þeim heilu firðina með bros á vör, spyr ekki einu sinni heimafólkið álits, en lofar innilega hið útlenska framtak. Og kærir sig kollótt um, þó reynslan af eldinu á heimaslóðum útlensku eldisrisanna sé skelfileg fyrir villta laxastofna og náttúruna – núna eins og tifandi tímasprengja fyrir íslenskt lífríki.“