Nú er staðfest að 774 tonn af dauðum fiski hafa verið fjarlægð úr kvíunum. Það gerir um 129 þúsund fiska samkvæmt frétt Stundarinnar. Til samanburðar telur allur villti íslenski laxastofninn um 80 þúsund fiska.

Meðferðin á eldisdýrunum í sjókvíaeldi er ömurleg. Fólk á að forðast matvöru sem er framleidd með þessum hætti.

Skv. umfjöllun Stundarinnar:

“Tæplega 129 þúsund eldislaxar hafa drepist í sjókvíum Arnarlax í Arnarfirði á síðustu vikum. Samtals er um að ræða fiska sem vega 774 tonn og er meðalþyngd laxanna því um 6 kíló. Upplýsingarnar um umfang laxadauðans koma fram í svörum frá Matvælastofnun, opinberri eftirlitsstofnun sem hefur eftirlit með laxeldi í sjókvíum á Íslandi.  Þetta er rúmlega 200 tonnum meira af dauðum eldislaxi en samkvæmt síðustu upplýsingum frá Matvælastofnun um umfang laxadauðans frá því 20. febrúar. …

Ástæða laxadauðans í kvíum Arnarlax eru þrengsli í þeim, þar sem fiskurinn var kominn í sláturstærð og tók því meira pláss en ella, og lágur sjávarhiti. Þettta tvennt gerði það að verkum að laxinn leitaði neðar í kvíarnar í Arnarfirði og nuddaðist fiskurinn í auknum mæli við netið í kvíunum sem leiddi til þess að sár mynduðust á hreistri laxanna sem svo dró þá til dauða.

Þetta umfang laxadauðans hjá Arnarlaxi, sem er einn sá mesti sem um getur á Íslandi á síðustu árum, er nærri 8 sinnum meira en samkvæmt fyrstu tölum um magn dauðra fiska sem fram kom í frétt Stundarinnar um málið þann 11. febrúar síðastliðinn. Vandamálið var því umtalsvert stærra í sniðum en virtist í fyrstu.

Samkvæmt þessum tölum var laxadauðinn hjá Arnarlaxi það mikill að um var að ræða meira en 1/10 hluta af öllum þeim eldislaxi sem var að finna í sex kvíum fyrirtækisins í Hringsdal í Arnarfirði. Samkvæmt tölum frá Matvælastofnun voru samtals tæplega 958 þúsund eldislaxar í kvíunum sex í september 2019, áður en veturinn skall á. Því er um að ræða að samtals rúmlega 13 prósent af heildarfjölda laxanna í kvíunum í Hringsdal hafa drepist á síðustu vikum. ”