Fjölmargar ábendingar streyma nú fram um eldislaxa sem hafa veiðst á undanförnum vikum. Sporðaköst á MBL segja frá þessum sem kom á land í Skagafirði.
Við höfum lika fengið fréttir af sleppilöxum sem hafa komið í silunganet í Aðalvík og Jökulfjörðum fyrir vestan.
Í umfjöllun Sporðakasta segir m.a.:
Lax veiddist í Helluá í Skagafirði þann 2. ágúst og má telja fullvíst að um eldislax sé að ræða. Sporðaköst fengu senda mynd af laxinum og ber hann öll einkenni eldislax og er hann illa farinn á sporði. Laxinn mældist 89 sentímetrar.
Það einkennir þessa fiska önnur doppusetning en sjá má á villta íslenska laxinum. Þá er gjarnan brúnleit slikja á bakinu á þeim og gulgrænn litur sést oft á höfði.
Athygli vekur að fiskurinn er veiddur 2. ágúst og hafði hann gengið upp Héraðsvötnin og í Helluána sem er um þrjátíu kílómetra frá sjó.
Þá hafa Sporðaköst einnig fengið sendar myndir af laxinum sem veiddist í silunganet í Haukadalsvatni fyrir rúmri viku. Ómögulegt er að segja til um hversu margir laxar geta verið í vatninu. Sá lax bar öll einkenni þess að vera ættaður úr eldi. Miklar uggaskemmdir og illa farinn sporður.
..
Þekkt er að eldislax sem sleppur úr kví getur hagað sér með öðrum hætti en villti laxinn. Hann getur verið að ganga í ólíklegustu ár og á öðrum tímum en við eigum að venjast. Það virðist vera tilfellið í Haukadalsá en mjög óvanalegt er að fjöldi stórra laxa sé að ganga í hana á þessum tíma sumars.