Vegna þeirra hörðu átaka sem eru í gangi um sjókvíaeldi við Ísland er mikilvægt að hafa þessi þrjú atriði hér fyrir neðan á hreinu.
1) Persónulegir fjárhagslegir hagsmunir
Ástæðan fyrir hinum feikilega þunga lobbísima sjókvíaeldisins er gamalkunn: peningar. Miklir persónulegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi fyrir nokkra einstaklinga og þau fyrirtæki sem þeir tengjast.
Eitt dæmi sem sýnir þessa stöðu í hnotskurn er Fiskeldi Austfjarða. Lesendur þessarar síðu ættu að vera farnir að þekkja menn sem tengjast því fyrirtæki. Þeir hafa haft sig mikið frammi hér í athugasemdum. Hamagangurinn í þeim er vel skiljanlegur miðað við hvað hvað um er að tefla fyrir þá persónulega. Ef tekst að keyra í gegn fjölgun leyfa á næstu árum mun verðmæti þeirra í félaginu aukast gríðarlega.
Þegar stór hluti í Fiskeldi Austfjarða var seldur í fyrra koma fram að kaupverðið gæti fjórfaldast ef leyfi fengjust til aukinnar framleiðslu á næstu tíu árum. Í þessum viðskiptum var seldur 45,2% hlutur í félaginu fyrir 965 milljónir króna. En kaupverðið verður hins vegar um 3,9 milljarðar ef ný leyfi fara í gegn á næstu árum. Munurinn er sem sagt um þrjúþúsund milljónir króna!
Þessar háu fjárhæðir eru skýringin á miklum umsvifum hagsmunagæslu fyrirtækjanna. Þau reka sérstakt landssamband með starfsmönnum (þar á meðal er fyrrverandi forseti Alþingis og ráðherra sem fór beint úr störfum hjá almenningi í vinnu fyrir þennan geira), sjókvíaeldið fjármagnar Fiskeldisblaðið – eigið málgagn með sérstakri ritstjórn og samfélagsmiðlaaútgáfu – og er svo með ýmsa dýra almannatengslaráðgjafa á sínum snærum.
2) Hæpin verðmætasköpun fyrir Ísland
Talsmönnum sjókvíaeldisfyrirtækjanna er tíðrætt um útflutningsverðmæti afurðanna. Þeir láta hins vegar alveg vera að nefna hina hliðina, sem er annars vegar kostnaðurinn við að skapa þessi verðmæti og hins vegar hvað verður eftir á Íslandi.
Eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna eru að langstærstum hluta norsk risafyrirtæki. Þau selja þessum dótturfélögum sínum fóður, búnað og ýmsa sérfræðiþjónustu dýrum dómum. Þeir peningar fara allir úr landi.
Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa ekki verið að skila góðri afkomu hér. Skoðum til dæmis það stærsta, Arnarlax. Árið 2017 var taprekstur fyrirtækisins 2,1 milljarður króna. Að sögn forstjóra félagsins var 2018 martröð og verður afkoman því væntanlega enn verri það árið.
Athugið að Arnarlax er ekkert nýsköpunarfyrirtæki. Það var stofnað 2009.
Svo er rétt að muna að þetta er þriðja bylgja sjókvíaeldistilrauna við Ísland. Þær fyrri enduðu með miklu tjóni fyrir lánastofnanir og sjóði í almannaeigu.
3) Sjókvíeldið er ógn við íslenskan landbúnað
Í málflutningi talsmanna sjókvíaeldisins birtist mjög einbeittiur vilji til að búa til andstæða póla milli höfuðborgar og landsbyggðar. Það er beinlínis fölsun á veruleikanum. Ef náttúruverndarhlutinn er settur til hliðar og aðeins horft á atvinnuþátt málsins, er staðreyndin sú að atvinnutekjur í íslenskum landbúnaði hvíla að stóru hluta á veiðihlunnindum. Á landsvísu er þetta hlutfall 28% og á Vesturlandi 67%. Fjölmargar bændafjölskyldur myndu þurfa að bregða búi ef þessi þáttur afkomu þeirra hyrfi. Erfðablöndunin við villta laxinn er ekki eina hættan. Þegar eldislax kemur á landi bíður orðspor viðkomandi ár verulegan hnekki. Fólk kaupir ekki veiðileyfi dýrum dómum til að veiða eldislax. Í þessu samhengi er mikilvægt að átta sig á því að stangveiðimennirnir eru tekjulind fyrir bændurna. Að vilja taka áhættu á því að þessar tekjur hverfi lýsir mikilli fyrirlitningu á afkomu fólks í sveitum Ísland.
Það er ekki ásættanlegt að skapa störf með því að eyða þeim mögulega annars staðar.