Verður fróðlegt að sjá úr hvaða sjókvíaeldiskví þessi kom eftir að Hafrannsóknastofnun hefur lokið greiningu.
Þetta er þriðji eldislaxinn sem skilað er til stofnunarinnar á þessu vori.
Við treystum á að á Alþingi sitji nógu margir fulltrúar þeirra 70 prósent af þjóðinni sem eru andvíg sjókvíaeldi á laxi svo tryggt verði að hið hörmulega frumvarp um lagareldi verði ekki að lögum.
Það þarf að stöðva þessi spellvirki á náttúru og lífríki landsins. Furðulegt er að um 10 prósent fólks liti þennan iðnað jákvæðum augum.
Afar líklegur eldislax veiddist í Fljótaá í Fljótum í dag. Vigfús Orrason var að veiða í ánni og fyrst og fremst að leita að bleikju. … Grunsemdir vöknuðu strax hjá Vigfúsi enda afar reyndur veiðimaður. Við nánari skoðum má sjá að bakuggi er illa farinn og fiskurinn er hauslítill og minnir um flest á eldislaxana sem óðu um allt í haust sem leið, ættaðir frá Arctic Fish.
Laxinn verður frystur og því næst komið til Hafrannsóknastofnunar til rannsóknar. Aðspurður hvort hann héldi að fiskurinn hefði verið í ánni í vetur eða komið nýlega viðurkenndi Vigfús að hann væri ekki viss. „Fiskarnir sem við sáum í fyrra voru feitari, en hann er mjög hreisturlaus. Það verður forvitnilegt að heyra hvað Hafrannsóknastofnun segir,“ svaraði Vigfús.
Þetta er þriðji meinti eldislaxinn sem veiðist í vor. Hafrannsóknastofnun hefur beðið veiðimenn um að vera vakandi fyrir þessum óboðnu gestum og eins og dæmin sýna er ekki vanþörf á.
Talið er að 3,500 laxar hafi sloppið úr eldiskví Arctic Fish síðasta haust. Tæplega fimm hundruð hafa veiðst í laxveiðiám. Þá vantar ríflega þrjú þúsund fiska. Eitthvað af þeim getur hafa drepist en fyrir því eru engar sannanir.