Verður fróðlegt að sjá úr hvaða sjókvíaeldiskví þessi kom eftir að Hafrannsóknastofnun hefur lokið greiningu.

Þetta er þriðji eldislaxinn sem skilað er til stofnunarinnar á þessu vori.

Við treystum á að á Alþingi sitji nógu margir fulltrúar þeirra 70 prósent af þjóðinni sem eru andvíg sjókvíaeldi á laxi svo tryggt verði að hið hörmulega frumvarp um lagareldi verði ekki að lögum.

Það þarf að stöðva þessi spellvirki á náttúru og lífríki landsins. Furðulegt er að um 10 prósent fólks liti þennan iðnað jákvæðum augum.

Á mbl.is segir:

Afar lík­leg­ur eld­islax veidd­ist í Fljótaá í Fljót­um í dag. Vig­fús Orra­son var að veiða í ánni og fyrst og fremst að leita að bleikju. … Grun­semd­ir vöknuðu strax hjá Vig­fúsi enda afar reynd­ur veiðimaður. Við nán­ari skoðum má sjá að bak­uggi er illa far­inn og fisk­ur­inn er haus­lít­ill og minn­ir um flest á eld­islax­ana sem óðu um allt í haust sem leið, ættaðir frá Arctic Fish.

Lax­inn verður fryst­ur og því næst komið til Haf­rann­sókna­stofn­un­ar til rann­sókn­ar. Aðspurður hvort hann héldi að fisk­ur­inn hefði verið í ánni í vet­ur eða komið ný­lega viður­kenndi Vig­fús að hann væri ekki viss. „Fisk­arn­ir sem við sáum í fyrra voru feit­ari, en hann er mjög hreist­ur­laus. Það verður for­vitni­legt að heyra hvað Haf­rann­sókna­stofn­un seg­ir,“ svaraði Vig­fús.

Þetta er þriðji meinti eld­islax­inn sem veiðist í vor. Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur beðið veiðimenn um að vera vak­andi fyr­ir þess­um óboðnu gest­um og eins og dæm­in sýna er ekki vanþörf á.

Talið er að 3,500 lax­ar hafi sloppið úr eldisk­ví Arctic Fish síðasta haust. Tæp­lega fimm hundruð hafa veiðst í laxveiðiám. Þá vant­ar ríf­lega þrjú þúsund fiska. Eitt­hvað af þeim get­ur hafa drep­ist en fyr­ir því eru eng­ar sann­an­ir.