Í tilefni greinar matvælaráðherra höldum við áfram að rifja upp sögu starfsmanna ráðuneyta við gerð lagafrumvarpa um sjókvíaeldi.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi á Íslandi, sem kom út í fyrra, var vakin athygli á því að starfsmaður ráðgjafarfyrirtækis sem er í eigu stjórnarformanns Arnarlax vann samhliða fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að því að undirbúa ný lög um fiskeldi sem samþykkt voru árið 2019.

Heimildin greindi frá:

Starfsmaður ráðgjafarfyrirtækis sem er í eigu stjórnarformanns Arnarlax vann samhliða fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að því að undirbúa ný lög um fiskeldi sem samþykkt voru árið 2019. Á þetta er bent í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi á Íslandi. Maðurinn heitir Jón Þrándur Stefánsson og var hann samtímis starfsmaður Markó Partners ehf., fyrirtækis Kjartans Ólafssonar, stjórnarformanns Arnarlax. Ítrekað hefur verið fjallað um aðkomu og áhrif Kjartans Ólafssonar í íslensku laxeldi en Arnarlax er stærsta slíka fyrirtæki landsins.

Jón Þrándur var starfsmaður starfshóps sem þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála, Gunnar Bragi Sveinsson, skipaði árið 2016 og var ráðuneytið meðvitað um tengsl hans við Markó Partners og Kjartan Ólafsson þegar hann var ráðinn þangað sem verktaki. Um þetta segir í skýrslunni: „Starfsmaður hópsins var verktaki á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Greint var frá því á opinberum vettvangi að viðkomandi hafi á sama tíma og nefndin var að störfum verið fastráðinn starfsmaður ráðgjafarfyrirtækis stjórnarformanns Arnarlax og að ráðuneytið hefði verið meðvitað um þau tengsl þegar hann var ráðinn þangað.“

Starfshópurinn skilaði skýrslu um vinnu sína til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi sjávarútvegsráðherra, í ágúst árið 2017.

Tvenns konar dæmi um aðkomu að lögunum 2019
Umfjöllun Ríkisendurskoðunar um mál Jóns Þrándar er eitt af nokkrum dæmum í skýrslunni þar sem stofnunin bendir á mál sem tengjast laxeldi sem verið hafa til umfjöllunar í fjölmiðlum. Ríkisendurskoðun fellir engan gildisdóm um málið eða dregur ályktanir en segir einfaldlega að svona hafi þetta verið. …

Ríkisendurskoðun fjallar einnig um annað mál sem tengist þessari lagasetningu árið 2019. Þetta eru afskipti skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að því að láta fresta birtingu laganna um fiskeldi í Stjórnartíðindum um sumarið 2019. Ríkisendurskoðun greinir frá því að skrifstofustjórinn, Jóhann Guðmundsson, hafi verið kærður til Héraðssaksóknara út af þessu en að málið hafi verið látið niður falla vegna þess að ekki þótti ljóst að inngrip hans hafi verið af ásetningi. Ríkisendurskoðun segir aðkomu Jóhanns að frestun gildistöku laganna vera „alvarlega“ í skýrslunni.

Þannig er bent á tvenns konar sérstaka eða eftirtektarverða aðkomu starfsmanna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að lagasetningunni um fiskeldi árið 2019.