Eftirlit með sjókvíaeldi við Ísland er í algerum molum.
Fiskeldisfyrirtæki sinna innra eftirliti með búnaði og slysasleppingum og Matvælastofnun sinnir eftirliti með því að reglum sé framfylgt. Vísir greindi frá því í morgun að þrátt fyrir tilkynningu frá Arnarlaxi, þann 12. febrúar síðastliðinn, um skemmdir á búnaði sjókvía fyrirtækisins hafi Matvælastofnun ekki enn kannað kvíarnar. Matvælastofnun segir að slæmt veður sé meðal ástæðna þess að ekki hefur verið haldið vestur til að kanna kvíarnar; það verði gert í þessari viku.
…
Ekki tókst að ráða í stöðu eftirlitsmanns
Haustið 2016 boðaði Atvinnuvegaráðuneytið fjögur ný stöðugildi á sviði rannsókna og eftirlits í fiskeldi á Vestfjörðum; meðal þeirra var staða eftirlitsmanns Matvælastofnunar með fiskeldi sem átti að starfa í Vesturbyggð, þar sem Arnarlax er með höfuðstöðvar sínar. Ekki tókst að ráða í stöðuna.
Eftirlitsmenn í mörg hundruð kílómetra fjarlægð
Einn starfsmaður Matvælastofnunar er starfandi á Vestfjörðum, það er eftirlitsdýralæknir og hefur henni verið falinn hluti af því eftirliti sem átti að vera á borði eftirlitsmanns í Vesturbyggð. Þess má þó geta að yfir vetrartímann, þegar Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði eru ekki ruddar, er vegalengdin akandi á milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða svipuð og frá Ísafirði til Reykjavíkur.“