„Njáll Trausti sleppti líka að minnast á að sjókvíaeldi er bein atlaga að miklum verðmætum sem eru nú þegar til staðar í landinu. Alls eiga um 4.500 lögbýli veiðirétt (samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands) og eru tekjur af veiðihlunnindum ein meginstoð búsetu í dreifbýli á Íslandi. Þegar horft til landsins alls standa þessar tekjur undir 28 prósent af hagnaði og launakostnaði í landbúnaði. Í kjördæmi Njáls er þetta hlutfall vel yfir landsmeðaltalinu eða 34% á Austurlandi.
Sleppifiskur í sjókvíaeldi er bein ógn við þessi verðmæti. Hætta er á að þær fjölskyldur sem missa tekjur af stangveiði muni þurfa að bregða búi.“
Inga Lind Karlsdóttir, stjórnarmeðlimur IWF, fer lið fyrir lið yfir allt það sem Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður lét ósagt í algjörlega gagnrýnislausum skrifum sínum um sjókvíaeldi við Ísland.
Í greininni sem birtist á Vísi segir Inga Lind m.a. um meinta atvinnusköpun sjókvíaeldisins:
„Fjöldi starfa sem Njáll hélt á lofti í grein sinni er tálsýn. Störfin verða alltaf miklu færri en var lofað og eru þar að auki ekki í nokkru hlutfalli við vöxt þeirra tonna af eldislaxi sem er settur út í sjókvíarnar. Sú saga er til og hefur verið færð til bókar. Þannig störfuðu árið 1987 um fjögur þúsund manns við sjókvíaeldi í Noregi þegar ársframleiðslan var um 46 þúsund tonn af laxi. Árið 2018 hafði framleiðslan 28-faldast, var komin í 1,3 milljónir tonna, en störfin þó aðeins helmingi fleiri en þrjátíu árum áður.
Stórum hluta af þessum störfum sinnir svo erlent farandverkarfólk á lágmarkslaunum því í Noregi er sama upp á teningnum og hefur verið hér um árabil í landvinnslu sjávarútvegarins þar sem yfir helmingur er erlent starfsfólk. Heimafólk er upp til hópa lítið áhugasamt um þau störf og kjör sem eru í boði í þessum geirum.
Störfum hefur þannig verið að fækka jafnt og þétt sem hlutfall af framleiðslumagni í sjókvíaeldi á laxi. Rétt eins og í sjávarútveginum er tækniþróunin hröð. Við Íslendingar þekkjum þá sögu vel. Einn frystitogari dekkar nú veiðar og vinnslu sem áður var sinnt af nokkrum skipum og frystihúsum á landi.
Og það er fyrirsjánlegt að störfum í kringum sjókvíaeldi mun fækka enn hraðar á allra næstu árum. Stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki heims, Mowi, boðaði nánast byltingu í þeim efnum í viðamikilli kynningu sem það sendi frá sér fyrr á árinu um leið og það sagði frá niðurskurði sem hafinn er á starfsliði fyrirtækisins.“