Byggðarráð Borgarbyggðar hefur samþykkt einróma hvatningu til Alþingis um að gera nauðsynlegar endurbætur á fiskeldisfrumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svo „tryggt verði að lífsafkomu íbúa á þeim svæðum landsins, þar sem virði laxveiðiáa skiptir verulegu máli í viðhaldi búsetu og afkomu almennings, verði ekki ógnað.
Á Vesturlandi nær starfsemi veiðifélaga og veiðifélagsdeilda til 620 lögbýla. Á Vesturlandi eru tekjur veiðifélaga og veiðiréttarhafa um þriðjungur af öllum slíkum tekjum á landinu. Þar fyrir utan er margvísleg afleidd þjónusta í tengslum við laxveiði sem skapar tekjur og lífsviðurværi fyrir íbúa sveitarfélagsins. Í Borgarbyggð einni er að finna nokkar af verðmætustu laxveiðiám landsins. Því er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Borgarbyggð og nærsveitir á Vesturlandi að tekið sé mið af þýðingu villtra laxastofna fyrir afkomu íbúanna og búsetuskilyrðum í héraðinu þegar Alþingi fjallar um frumvarp til laga um fiskeldi. Sjálfbær nýting íslenskra laxa- og silungastofna er ein meginstoð landbúnaðar í Borgarbyggð,“ segir í bókun byggðarráðsins.