Sjókvíaeldisfyrirtækið Kaldvík tapaði 2,4 milljörðum íslenskra króna á fyrstu sex mánuðum ársins og eykst tapið verulega milli ára.
Meðferð á eldislöxunum hefur verið skelfileg af hálfu Kaldvíkur og fiskidauði hrikalegur í sjókvíunum.
Matvælastofnun (MAST) kærði fyrtækið í upphafi árs til lögreglu vegna brota a dýravelferðarlögum og sektaði fyrirtækið vegna brota á sömu lögum í öðru máli. Lögreglurannsóknin stendur enn yfir í fyrra málinu.
Gríðarlegur fjöldi eldislaxa hefur drepist í sjókvíum Kaldvíkur í Berufirði í vor og sumar vegna þörungablóma. Þegar blóminn nær sér á strik eyðir hann súrefni úr sjónum og laxarnir kafna þar sem þeir eru fastir í netapokunum.
Sjókvíaeldi á laxi er grimmdarleg og óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
Samanlagt tap stóru sjólvíaeldisfyrirtækjanna þriggja, Kaldvíkur, Arnarlax og Arctic Fish, á fyrri hluta ársins nemur um 4,7 milljörðum króna.
Ekkert þessara fyrirtækja mun greiða tekjuskatt hér á landi frekar en fyrri ár.
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins segir m.a.:
Laxeldisfyrirtækið Kaldvík tapaði 16,4 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 2,4 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar tapaði félagið 6,4 milljónum evra á sama tímabili í fyrra. Þá færði félagið niður spá sína um magn slátraðs fisks í ár. …
Tekjur á fjórðungnum jukust um nærri helming milli ára, úr 5,4 milljónum evra í 7,9 milljónir evra eða sem samsvarar rúmlega 1,1 milljarði króna.
EBIT-afkoma fyrir gangvirðisbreytingar á lífsmassa og framleiðsluskatt var neikvæð um tæplega 4,3 milljónir evra. Félagið færði niður virði lífsmassa um 7,2 milljónir evra en lífrænar eignir (e. biological assets) félagsins námu þó 119 milljónum evra í lok júní, samanborið við 110 milljónir evra í lok mars. …
Kaldvík slátraði 1.235 tonnum af eldislaxi á öðrum ársfjórðungi og samtals 7.618 tonn á fyrri árshelmingi. Félagið gerir ráð fyrir að slátra 2.300 tonnum á þriðja ársfjórðungi og 8.100 á fjórða ársfjórðungi.
Laxeldisfyrirtækið færði niður spá sína fyrir árið 2025 um 16% og gerir nú ráð fyrr að slátra 18 þúsund tonnum af laxi í ár. Til samanburðar gerði félagið áður ráð fyrir að slátra um 21,5 þúsund tonnum á árinu.